Heimsókn til hugmyndasmiða

Hugmyndasmiðir leynast víða um land, eru allskonar og vinna við að skapa ólíkar lausnir við vandamálum.
Við ferðuðumst um landið eitt sumarið og fengum að heyra og skoða hvað nokkrir þeirra eru að vinna með.
Við þökkum þeim kærlega fyrir að bjóða okkur í heimsókn og deila hugmyndum sínum, reynslu og góðum ráðum með okkur.

Guðmundur er frumkvöðullinn á bak við líftæknifyrirtækið Kerecis sem þróar lækningarvörur úr fiskipróteinum sem unnin eru úr fiskroði. Fyrirtækið er staðsett á Ísafirði og selur vörur sínar um allan heim. Kerecis er fyrsti “einhyrningur” Íslands (e. unicorn), en það er fyrirtæki sem er verðmetið á meira en 1 milljarð dala sem eru um 140.000.000.000 kr!

Kári er frá Rifi á Vesturlandi og eftir að hafa menntað sig erlendis vildi hann flytja aftur heim og gera eitthvað skapandi. Hann gerði upp gamalt frystihús og rekur þar í dag Frystiklefann sem er viðburða- og gistihús. Húsið hefur verið sannkölluð driffjöður menningarlífs á Snæfellsnesi og er suðupottur snilldarverka, leiksýninga og tónleikahalds í bland við annað viðburðahald.

Júlía er vísindakona sem starfar hjá Mýsköpun sem er frumkvöðlafyrirtæki á sviði líftækni. Fyrirtækið er staðsett á einstöku jarðhitasvæði við Mývatn í Norðurlandi eystra og sérhæfir sig í framleiðslu og rannsóknum á örþörungum, þar á meðal spirulina. Fyrsta varan sem var þróuð með spirulina frá Mýsköpun var sérstakur ís frá Skútaís.

Árni er yngsti æðardúnsbóndi landsins. Fyrirtækið hans heitir Icelandic Eider og er staðsett á Norðurlandi Vestra. Þegar hann meiddist í fótbolta, sem var hans helsta áhugamál, tók lífið hans óvænta stefnu og leiddi hann á vit nýrra ævintýra. Núna selur hann hágæða dúnsængur og þróar nýjar vörur úr æðardún - og passar vel upp á æðarfuglinn á meðan.

Hjónin William Óðinn og Gréta Mjöll búa á Djúpavogi á Austurlandi þar sem þau reka fyrirtækið LeFever Sauce Company. Þau trúa því að matur sé miklu meira en bara næring og brenna fyrir að opna augu fólks fyrir nýjum bragðheimum með samsetningu framandi og staðbundinna afurða. Fyrirtækið einsetur sér að framleiða og þróa bragðgóða, heilnæma og bragðsterka matvöru - þá sérstaklega eldheitar sósur (e. hot sauce)!

María er frumkvöðullinn á bak við tölvuleikjafyrirtækið Partity sem hefur aðsetur á höfuðborgarsvæðinu. Fyrirtækið byggir á þeirri hugmynd að leikjaiðnaðurinn þurfi á meiri fjölbreytni að halda, bæði í þróun og í vörum sínum. Markmið Parity er að skapa leiki með fjölbreytni að leiðarljósi sem höfða til breiðari hóps fólks. Parity er að þróa tölvuleikinn Island of Winds, sögu- og ævintýraleik sem er innblásinn af íslenskri náttúru, sögu og þjóðsögum.

Við hittum Eydísi í fjörunni á Reykjanesi en hún er einn helsti sérfræðingur Íslands í þara. Þari tilheyrir flokki þörunga sem eru mjög fjölbreyttir, sjálfbærir, næringarríkir og innihalda mörg lífvirk efni. Á Íslandi eru meira en 2000 tegundir af þörungum. Eydís vinnur vörur úr þaraþykkni í fyrirtækinu sínu Zeto og þróar meðal annars duftsjampó sem náttúrulegt og umhverfisvænt.